Það eru fjórar bækur á náttborðinu mínu. Í skjóli heimspekinnar, eftir Pál Skúlason. Stolið frá höfundi stafrófsins, Davíð Oddsson, Lífið framundan, Romain Gary, Náðargáfa Gabríels, Hanif Kureishi, Handan góðs og ills, Friedrich Nietzsche. Gríp í þær undir svefn. Festist sjaldnast við efni þeirra nema hjá Nietzsche. Það er slíkan unað að hafa.
Lífið framundan vakti áhuga minn þegar Ásta, það er konan sem hefur umborið mig í 45 ár, kom ofan úr Borgarnesi eitt sinn, þar sem hún hafði heimsótt háaldraða frænku sína á dvalarheimili aldraðra. Á leið um húsið þurfti Ásta að fara í gegnum almenning þar sem vistmenn voru á sal og starfsmaður, virðuleg kona, las af bók upphátt fyrir fólkið. Allt í einu brá ein gamla konan við upplestrinum, og hrópaði: „Ekki vissi ég að hægt væri að selja á sér rassgatið.”
Í skjóli heimspekinnar og aðrar bækur Páls Skúlasonar hafa lengi verið vinir. Komst einu sinni svo langt á menntabrautinni að hringja í Pál og láta skrá mig í auglýst námskeið fyrir almenning. Annað sinn sat ég fyrirlestur hjá honum í fílbeinsturni Hallgrímskirkju. Þar ræddi hann um trúna á Guð eins og maður sem skilur og lætur sér þykja vænt um annað fólk. Það er vissulega blessun að Páll skuli vera lærimeistari í Háskóla Íslands. Fór samt aldrei á námskeiðið.
Stolið frá höfundi…. Davíð reyndist mér og Samhjálp hvítasunnumanna vel í þessi 22 ár sem við Ásta leiddum það starf. Einn af sárafáum. Það væri efni í talsverða bók að greina frá viðskiptunum sem við urðum að hafa við stjórnmálamenn. Þar kom oft í ljós hve oft dvergar veljast í stórar stöður og hvað margur sem fjálglegast talar og lætur í fjölmiðlum er rýr af öðru en kjaftavaðlinum. Kemur þetta vel í ljós í sjónvarpi frá Alþingi íslendinga á þessum dögum. Það leyndist þó innan um einn og einn heill.
Náðargáfa Gabríels. Er varla komin af stað í henni en ók vestur á Bræðraborgarstíg einn daginn og keypti bókina heita, eða á að segja blauta, úr prentun. Ástæðan var fyrri þýdd bók höfundar, Náin kynni. Hún er ánægjuleg lesning.
Handan góðs og ills. Sú bók er veisluborð með krásum og skelfilega ánægjulegt að velta sér upp úr henni. Lesa viðhorf höfundarins, þessa ofvita, hann varð prófessor 24 ára gamall, og fylgjast með því hvernig hann klýfur niður viðhorf hinna virðulegu „heimspekinga” sem venjulegir menn dirfast varla að nefna. Hvað þá að vitna í eða fjalla um. En Nietzsche var hvergi banginn og tjáir viðhorf sitt til niðurstöðu heimspekinganna með orðalagi úr ævafornri helgisögn: „Þar birtist asninn, fagur og klár.”
Um viðhorf Nietzsches til trúarinnar er efni í sér pistil.