Hef velt því fyrir mér öðru hverju, í gegnum árin, hvers vegna Prédikarinn höfðaði svo sterkt til mín, af öllum bókum. Og varð fljótlega eins og hlið eða dyr inn á nýjar lendur huga og hugsunar. Lengi vel átti ég erfitt með að skilgreina hvað það var sem leyndist í textanum og hafði þessi áhrif á mig. En með árunum hefur þetta smámsaman orðið ljósara. Nú sýnist mér að sorgin í hjarta höfundarins hafi hljómað í líkum moll og mín. Sorg yfir fánýti, vonbrigðum og hégóma.
Það er gjarnan svo með texta ritninganna að í þeim leynist, milli línanna, hugsun og hulin speki. Leyndardómar sem ekki blasa við. Þekking sem ekki verður numin án íhugunar, ástundunar og þjáningar. Því, eins og Prédikarinn sjálfur segir: „Fjarlægt er það sem er, og djúpt, já djúpt. Hver getur fundið það?” Og menn hefja leit í þeirri trú og von, að viskan gerist vinsamleg, komi á móti þeim og stofni til náinna kynna.
Andvarp. Hljómur Prédikarans. Hann hefur litið yfir sviðið, til baka og fram, og endurmetið lífshlaupið. Upplifað, skoðað og skilgreint. Og fyllst af tómleika. Sársauka. Allt snýst í hringi eins og vindurinn sem „reikandi kveinar á hvíld,” en finnur aldrei neina. „Hann snýr sér og snýr sér…,” „…og enginn fær sig lausan úr bardaganum.” Allt sem áður hafði gildi var nú hjómið eitt.
Andvarp og stuna. Og sár þörf fyrir lækni. Kannske var það þemað í textum hans. Sár þörf fyrir lækni. Og kannske var það einnig tónninn í ekka mínum. Sár þörf fyrir lækni. Og dýrmætt fyrsta skref á langri ferð.