Vangavelta um þessi orð kemur til hugar þegar lesið er upphafið að Prédikaranum í Biblíunni. Bók sem af mörgum er talin heiðin og full af bölsýni og líkt við orðræðu heimspekings þar sem íhugunarefnið er hversu lífið er stutt, mótsagnakennt og fánýtt. Niðurstaða höfundanna er, eftir að hafa rannsakað og kynnt sér „…allt það, er gjörist undir himninum… …og sjá; Allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi.”
Það var þessi dapri tónn sem fyrstur vakti áhuga minn fyrir ritningunum. Það gerðist í hlekkjum. Hvar allt verður fánýtt og einskisvirði. Hvar hulan sem glepur auga hins hversdagslega manns sviptist af og það blasir við að vindurinn snýst í hringi og sólin rennur upp og niður og vatnið streymir til sjávar og sjálf spekin verður hégómi. Hégómi. Hvað er hégómi? Og hvað er hégómagirnd?
Orðabók Eddu svarar fyrri spurningunni á eftirfarandi hátt: „hégómi -a KK 1 ryk, rykvefur, rykhnoðri – kóngulóarvefur 2 lýgi, ósannindi, uppspuni, -ímyndun – fals – þvaður 3 auvirðilegir hlutir, auvirða > leggja nafn guðs við hégóma þ.e. nefna það í sambandi við einskisvert efni 4 ónytsamur varningur, smámunir > kaupa eintóman hégóma 5 tepruleg manneskja, dugleysingi.” Semsagt: Ryk, rykvefur, rykhnoðri, lýgi, uppspuni, þvaður, ónytsamur varningur, tepruleg, manneskja.
Og til skýringar á orðinu hégómagirnd segir Orðabókin; „þrá eftir fáfengilegum hlutum sem snúast um eigin persónu.” Þar höfum við það og um leið verður okkur ljóst hvað ótrúlega margir eru mótaðir af þessari þrá eftir fáfengilegum hlutum. Baða sig í sviðsljósi, heiðra og skiptast á heiðri og „láta þeyta lúður fyrir sér til þess að hljóta lof af mönnum.” .
Hverjir sem höfundar Prédikarans voru í raun blasir við að þar voru á ferð menn mikillar lífsspeki, þekkingar og reynslu. Menn sem höfðu lagt mat á tilveruna og greint á milli kjarna og hismis og birt niðurstöður sínar þótt þær brytu í bága við hefðbundna spekistefnu Gamla testamentisins. Niðurstaða þeirra er að fólk geri meira með fáfengileikann en raunveruleg verðmæti, að eftirsókn eftir vindi einkenni starf manna og líf, jafnvel heilla þjóða. Með öðrum orðum, það er hismið sem menn heillast af og dansa við.